
Þátttaka barna
Það að vera með viðveru eða á staðnum er ekki nóg heldur þurfa börn að vera virk og innifalin í afþreyingunni til þess að þátttaka eigi sér stað. Mikilvægt er að leita leiða til að stuðla að þátttöku fatlaðra nemanda og fjarlægja hindranir sem mæta þeim í umhverfi skóla og frístundar. Þegar umhverfið er aðlagað að þörfum barna sem búa við skerðingar og fatlanir er hægt að auka lífsgæði og þátttöku þeirra. Með því að vinna að lausnum á fjölbreyttan hátt, fylgja lögum og reglum eftir í starfi og auka þekkingu á aðgengi er hægt að bæta þátttöku fatlaðra barna. þátttaka fatlaðra barna er hindruð vegna neikvæðra viðhorfa. Börn eru líklegri til að taka þátt í félagslegri afþreyingu ef þau óttast ekki einelti. Af þeim ástæðum er nauðsynlegt að breyta viðhorfum til fötlunar til hins betra til þess að fötluð börn finni ekki fyrir þessum neikvæðu viðhorfum, óttist ekki einelti og þar af leiðandi taki meiri þátt.
Fötluð börn sem trúa ekki á hæfni sína til þess að taka þátt eru mun líklegri til þess að taka þátt ef þau fá viðeigandi stuðning frá aðstoðarfólki. Þátttaka fatlaðra barna í frístund hjálpar þeim að vera hluti af samfélaginu, öðlast aðlögunarfærni og fá betri sýn á lífið. Þátttaka fatlaðra barna er frekar takmörkuð af umhverfinu en út frá persónulegum ástæðum og þessvegna er mikilvægt að umhverfi frístundar sé án aðgreiningar. Með einstaklingsmiðaðri nálgun, viðmiðum og hugmyndafræði til hliðsjónar er hægt að hafa góð áhrif á þátttöku barna. Með því er hægt að passa upp á rétt barna og passað að lífsskilyrði þeirra séu góð og til jafns við aðra.